7. dagur í ferðalagi karlalandsliðs

Það var komið að fyrri frídeginum hjá liðinu og var hann nýttur til að undirbúa liðið fyrir næsta leik sem er gegn Kínverjum. Á síðustu tveimur HM-mótum höfum við verið nálægt því að ná sigri gegn þeim og nú voru menn ákveðnir í að ná sigrinum.

Byrjað var á æfigu eftir morgunmatinn en á frídögum er æfingin klukkustund á meðan hún er 30 mínútur á keppnisdögum. Þegar heim á hótel var komið tók við matartími en síðan var boðaður fundur síðar um daginn til að horfa á parta úr leikjunum sem þegar höfðu verið leiknir.

Allir voru mættir í fundarherbergið á réttum tíma og byrjað var á að skoða leikinn við Nýja-Sjáland. Farið var yfir það sem gera mátti betur en einnig það sem vel hafði verið gert. Eitt og eitt brot íslensku leikmannannna var skoðað en þó var eitt brot skoðað oftar en önnur. Jónas Breki hafði í leiknum fengið dóm fyrir “olboga” en sór og sárt við lagði að hann hefði farið með öxlina í leikmanninn og því allt löglegt samkvæmt bókinni. Miðað við hlátursköllin á fundinum þá voru menn ekki mjög sannfærðir um röksemdarfærsluna hjá Jónasi.

Þegar menn höfðu horft nægju sína var horft á brot úr leiknum við Rúmena. Eftir að hafa horft í um tvær klukkustundir boðaði Richard þjálfari að hver og einn leikmaður skyldi koma til fundar við hann og Johan aðstoðarþjálfara eftir kvöldmat.

Í það eyddu menn kvöldinu og um miðnætti fór mannskapurinn í rúmið enda erfiður leikur framundan.

Kristján Maack tækjastjóri og ljósmyndari hefur verið að taka myndir og má finna þær hér og hér. Einnig höfum við sett upp tengla í “Bein útsending” hérna hægra meginn á síðunni svo auðveldara sé að finna myndirnar.

Myndina tók Kristján Maack

HH