6. dagur í ferð karlalandsliðs

Nú er farið að líða svolítið síðan maður skrifaði eitthvað í ferðasöguna. Maður huggar sig þó við að Morgunblaðið ásamt mbl.is gerir þátttöku okkar að þessu sinni góð skil. Kristján Jónsson blaðamaður af Morgunblaðinu hefur verið iðinn við kolann og honum til aðstoðar hefur verið tækjastjórinn og ljósmyndarinn Kristján Maack sem gæðir fréttirnar lífi með frábærum myndum.

Sunnudagurinn var einsog flestir leikdagar, þ.e. dagur með ákveðinni rútínu sem meira og minna ræðst af því klukkan hvað við spilum. Að þessu sinni var spilað klukkan 13.00 og rétt einsog daginn áður valdi Richard að sleppa hálftíma morgunæfingunni og leyfa mönnum að sofa frekar eilítið lengur. Þess í stað var tekinn morgunverður og síðan hálftíma labbitúr undir stjórn ratvísustu mannanna í liðinu. Við löbbuðum niður að landamærum Eistlands og Rússlands en því miður var þoka þannig að lítið var að sjá.

Leikurinn við Rúmeníu tapaðist eins og flestir vita en í honum mátti þó sjá marga góða punkta. Hraðinn í liðinu var töluvert meiri en frá því í leiknum deginum og þrjú mörk litu dagsins ljós hjá okkar mönnum. Á mbl. is mátti m.a. sjá eftirfarandi greinar eftir leikinn:

Tap gegn sterku liði Rúmena

 
19 ára gamall maður leiksins

Munurinn liggur í smáatriðunum 

Menn voru að sjálfsögðu ekki sáttir við tapið en gerðu sér þó grein fyrir því að Rúmenarnir voru nýkomnir ofan úr fyrstu deild og með gott lið.

Eins og fyrri daginn var haldið á hótelið í miðdegisverð og síðan hélt fararstjórnin í heilu aftur niður í höll og horfði á leikina sem eftir voru. Ný-Sjálendingar höfðu þar sigur á Ísraelsmönnum og kættust mjög enda þeir að koma upp úr 3. deild. Ný-Sjálenska liðið er í svipaðri stöðu og íslenska liðið var fyrir fáeinum árum þegar það flakkaði milli 3. og 2. deildar. Stórsigur Eista á Kínverjum kom hinsvegar ekki á óvart. Um hálf ellefu um kvöldið var síðan stjórnendafundur mótsins, þ.e. stjórnendur þess funduðu með fararstjórum liðanna. Þar koma menn kvörtunum sínum á framfæri ef einhverjar eru. Einnig eru valdir búningar á liðin fyrir næstu leiki, úrslit leikja staðfest og yfirlæknir og yfirdómari koma sínum athugasemdum á framfæri.

Leikmenn tóku hinsvegar lífinu með ró á meðan allt þetta fór fram og um miðnætti var komin ró á liðið.

Myndina tók Kristján Maack

HH