4. leikur í úrslitum


Frá leik liðanna í síðustu viku.                                                                                Mynd: Hákon Björnsson

Á morgun, þriðjudag, verður leikinn fjórði leikurinn í úrslitarimmunni um íslandsmeistaratitilinn í meistaraflokki karla. Rétt einsog í hinum leikjunum verða Björninn og Skautafélag Reykjavíkur sem eigast við og að þessu sinni fer leikurinn fram í Egilshöll og hefst klukkan 19.00. 

Staðan í einvíginu er sú að Björninn hefur unnið tvo leiki en SR-ingar einn, en það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki hampar íslandsmeistaratitlinum. Þetta þýðir að með sigri á morgun verða Bjarnarmenn íslandsmeistarar og því munu þeir án nokkurs vafa leggja allt í sölurnar til að svo verði. SR-ingar eru hinsvegar komnir með bakið upp að vegg og munu því leggja sig alla fram til að tryggja sér fimmta leik sem leikinn verður laugardaginn næstkomandi. Bæði lið hafa orðið fyrir smá skakkaföllum á leiðinni. Andri Þór Guðlaugsson náði ekki að leika síðasta leik og það sama átti við hjá Fal Birki Guðnasyni hjá Birninum. Óvíst er með þátttöku þeirra tveggja í leiknum á morgun.

HH