3. leikur í úrslitum

Úr fyrsta leik liðanna í úrslitakeppninni                                                                   Mynd: Hákon Björnsson

Þriðji leikurinn í úrslitakeppni um íslandsmeistaratitilinn í íshokkí fer fram á morgun, laugardag, í Skautahöllinni í Laugardal og hefst leikurinn klukkan 19.00.

Staðan í úrslitakeppninni er jöfn, þ.e. liðin hafa unnið sitt leikinn hvorn. Nú fer því formið að skipta máli því þetta er þriðji leikurinn á fimm dögum sem liðin spila. En það er ekki bara formið sem ræður för nú fara ýmiskonar meiðsl og eymsli að segja til sín eins og gengur og gerist þegar þétt er spilað. Hjá SR-ingum er Andri Þór Gunnlaugsson frá eftir að hafa fengið skurð í leiknum í gærkvöld. Ekki er enn vitað hvort Gauti Þormóðsson getur verið með og svo hefur Þórhallur Viðarsson verið frá um nokkurn tíma vegna meiðsla á hné. Hjá Birninum er Richard Tahtinen frá vegna ferðalags með kvennalandsliði og Birkir Árnason og Falur Birkir Guðnason kenna sér meins og því mun ekki koma í ljós fyrr en á morgun hvort þeir verða leikhæfir.

HH