1. leikur. Ísland - Tævan

Það er búið að ganga brösulega fyrir okkur hér úti í Tyrklandi að komast í netsamband. En það hafðist fyrir einhverjar vélar (ekki allar) seint í gærkvöldi. Við í fararstjórninni komum til með að setja smá pistla inn reglulega af því hvernig gengur.

Fyrsti leikurinn okkar var gegn Taiwan í gær og hófst hann hér á staðartíma klukkan 16:30. Það var strax ljóst hvort liðið var sterkara á svellinu, en Tævanar voru mjög hraðir en þeim skorti tækni og breidd í liðið sitt.

Það var Pétur Maack sem opnaði markareikning okkar á þessu móti þegar liðnar voru rúmlega 6 mínútur af leiknum. Matthías Skjöldur og Jóhann Leifsson bættu síðan við sínu markinu hvor og við vorum í þægilegri stöðu 3-0 eftir fyrsta leikhluta. Næsti leikhluti var sérlega góður hjá okkar mönnum en þar skelltum við inn 5 mörkum til við bótar. Egill Þormóðsson og Óskar Grönholm gerðu eitt hver en Matthías Máni Sigurðarson átti stórleik í þessum leikhluta og setti 3 mörk.

Í síðasta leikhlutanum gerði Egill 1 mark, Matthías Máni 1 og Hilmar Leifsson rak síðan smiðshöggið á frábæran sigur með einu marki. Ævar Björnsson lék fyrstu 2 leikhlutana í markinu og Daníel Jóhannsson þann þriðja. Þannig eru allir leikmenn búnir að leika því að Þjálfarinn Josh Gribben spilaði allan leikinn á öllum 4 sóknarlínunum og 3 varnarpörum og allar línur voru að skora mörk.

Matthías Máni Sigurðsson var valinn besti leikmaður íslenska liðsins að leik loknum en hann skoraði 4 mörk og átti tvær stoðsendingar.

Góður sigur hjá vel stemmdu og samhentu liði.

Nánari upplýsingar og tölfræði eru á vef IIHF en það er slóð þangað hér til hægri á síðunni.

Síðan er að koma inn ferðapistill frá Birni lækni undir U20 slóðinni.

Kveðja heim frá Istanbul.