1. leikur í úrslitakeppni kvenna

Frá leik liðanna fyrr í vetur
Frá leik liðanna fyrr í vetur

Fyrsti leikurinn í úrslitakeppni kvenna verður leikinn í kvöld en þá mætast SA Ásynjur og Björninn og fer leikurinn fram á Akureyri og hefst klukkan 19.30. Það lið sem verður fyrr til að vinna tvo leiki hampar íslandsmeistaratitlinum.

Þetta verður í fimmtánda sinn sem íslandsmeistarar verða krýndir í kvennaflokki en það var fyrst aldamótaárið 2000 sem krýndir voru íslandsmeistarar í flokknum. Það árið sigraði Björninn og einnig árið 2006 en þess utan hefur titillinn alltaf endað norðan heiða hjá Skautafélagi Akureyrar. SA Ásynjur hafa haft nokkurra yfirburði þetta árið en liðið tapaði einungis einu stigi í þeim tólf leikjum sem það lék í deildarkeppninni. Lið SA hefur meiri breidd á að skipa en Björninn sem missti sterka leikmenn fyrir tímabilið s.s. einsog Elvu Hjálmarsdóttir, Lilju Maríu Sigfúsdóttir og Ingibjörgu G. Hjartardóttir, sem allar fóru í barneignarfrí.

Leikir liðanna í vetur hafa flestir verið spennandi. Ásynjur hafa sótt meira en Bjarnarkonur varist. Næsti leikur liðanna í úrslitakeppninni er nk. fimmtudag og fer hann fram í Egilshöll.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH