1. dagur í úrslitum

Í kvöld klukkan 19.00  hefst á Akureyri úrslitakeppni Íslandsmótsins í meistaraflokki karla. Til úrslita leika Skautafélag Akureyrar og Björninn.

Skautafélagsmenn frá Akureyri hafa allt frá því byrjað var að leika um Íslandsmeistaratitilinn árið 1992 tekið þátt í úrslitarimmunni. Bjarnarmenn hinsvegar léku síðast í úrslitum árið 2001. Það var jafnframt í fyrsta skiptið sem Bjarnarmenn léku til úrslita en sú rimma endaði 3 – 2 SA-mönnum í vil.

En að leiknum í kvöld. Bæði lið hafa nú fengið nokkurt frí og vitað að þau hafa nýtt tímann vel til að æfa. Auk þess hefur þeim leikmönnum sem glímt hafa við smávægileg meiðsli gefist tími til að jafna sig af þeim. Því er ekki annað vitað en að allir leikmenn séu heilir heilsu og tilbúnir í fjörið.

Gert er ráð fyrir því að leikurinn verði í beinni textalýsingu hér á ÍHÍ þannig að þeir sem eiga ekki möguleika á að sækja Akureyringa heim geti fylgst með honum þar.

Myndina tók Sigurgeir Haraldsson

HH