"Og þá var kátt í höllinni höllinni". Stórsigur Íslands á Írum 8 – 0 (0-0)(3-0)(5-0)

Í kvöld áttust við Ísland og Írland. Ljóst var fljótt að hér var leikur kattarins að músinni því að íslenska liðið yfirspilaði lið Írlands algerlega allan leikinn. Ekki tókst liðinu að skora í fyrsta leikhluta en það var aldrei spurning hvort heldur hversu mikið. Í þessum fyrsta leikhluta skutu Íslendingar 17 skotum á mark Íra á meðan að gestirnir náðu aðeins 2 skotum á mark okkar. Rétt er að útskýra það að einungis eru talin skot sem að mundu gefa mark ef þau væru ekki varin, þannig eru stangarskot til að mynda ekki talin með. Skot á mark gefa því nokkuð góða mynd af því hvernig gangur leiksins er. 

 
Í öðrum leikhluta, nánar á 22. mínútu skoraði aldursforseti liðsins Rúnar Rúnarsson fyrsta mark Íslands eftir stoðsendingar frá þeim Emil Allengard og Ingvari Þór Jónssyni fyrirliða. Á 29. mínútu bætti síðan Emil Allengard við öðru marki íslands þegar okkar menn voru einum færri eftir stoðsendingu frá Gauta Þormóðssyni. Á 40. mínútu bætti Rúnar Rúnarsson síðan við sínu öðru marki og þriðja marki Íslands eftir stoðsendingu frá Þórhalli Viðarssyni og Emil Allengard. Staðan eftir annan leikhluta því 3 – 0 fyrir Ísland.

 
Í þriðja leikhluta lék íslenska liðið við hvern sinn fingur og Írar sáu aldrei til sólar. Aðeins voru liðnar 20 sekúndur þegar Þórhallur Viðarsson bætti við 4. marki Íslands, glæsilegt langskot frá bláu línunni algerlega óverjandi fyrir markvörð Íra, stoðsendingar áttu þeir Emil Allengard og Gauti Þormóðsson. Rúnar Rúnarsson bætti síðan við 3. marki sínu og 5. marki Íslands á 47. mínútu, stoðsendingar áttu þeir Emil Allengard og Ingvar Þór Jónsson fyrirliði. Á 48. mínútu bætti síðan Patrik Erkisson við 6. marki Íslands eftir stoðsendingar frá Emil Allengard og Jónasi Breka Magnússyni. Sjöunda mark Íslands skoraði síðan Gauti Þormóðsson eftir stoðsendingu frá Rúnari Rúnarssyni og Emil Allengard. Enda hnútinn á stórsigur Íslands batt síðan Ingvar Þór Jónsson fyrirliði á 55. mínútu eftir stoðsendingar frá Emil Allengard og Rúnari Rúnarsyni. Endanleg úrslit leiksins því 8-0 fyrir Ísland. 

Sérlega gaman var að fylgjast með samvinnu þeirra Emils Allengard, Rúnars Rúnarssonar, Gauta Þormóðssonar sóknarmanna og varnarparsins Þórhallas Viðarssonar og Ingvars Þórs Jónssonar fyrirliða en þessi lína skoraði 7 af 8 mörkum Íslands í kvöld. Hér virðist vera komin saman baneitruð lína sem er að finna sig vel saman. Hinar línur liðsins eru firnar sterkar og þrátt fyrir að þeim hafi ekki gengið eins vel að finna leiðina framhjá markverði Íra, þá er ljóst að Íslenska liðið er nú skipað þremur gríðarlega sterkum línum sem að allar geta gert útum leikinn.

Það voru á milli átta og níuhundruð manns sem að hvöttu Íslenska liðið til dáða í kvöld í Laugardalnum og eiga þeir allir miklar þakkir skildar að standa þétt við bakið á strákunum okkar. 

Leikurinn í tölum:

Mörk / Stoðsendingar Ísland:  #9 Rúnar Freyr Rúnarsson 3/2, #21 Emil Allengard 1/7, #25 Ingvar Þór Jónsson 1/2, #11 Gauti Þormóðsson 1/2, #19 Þórhallur Viðarsson 1/1, #23 Patrik Eriksson 1/0, #7 Jónas Breki Magnússon 0/1.

Skot á mark Ísland: 53 skot sem að gáfu 8 mörk.

Skot á mark Írland: 9 sem að gáfu ekkert mark.
Myndin með þessari frétt er af Emil Alengard sem átti þátt í öllum mörkum leiksins, skoraði sjálfur 1 og lagði upp öll hin.