Úrskurður aganefndar 2005-02-11 Mál nr. 01

Úrskurður aganefndar 2005-02-11     Mál nr. 01
 
Aganefnd ÍHÍ
Símafundur haldinn fimmtudaginn 10. febrúar og aftur föstudaginn 11. feb. 2005.
Mættir voru: Bjarni Kr. Grímsson, Kristján Maack og  Jón Heiðar Rúnarsson
 
Aganefnd 2005-02-11, mál 1.
Leikur Bjarnarins og SR í meistaraflokki karla miðvikudaginn 27. október 2004.

 
Fyrir var tekin leikskýrsla úr leik Bjarnarins og SR í meistaraflokki karla miðvikudaginn 27. október 2004 og atvikaskýrslur dómara úr sama leik. Einnig hefur borist greinargerð frá stjórn íshokkídeildar Bjarnarins.
 
Á 28. mínútu gaf lið Bjarnarins leikinn og fór af leikvangi, slíkt hefur ekki komið fyrir áður og hefur aganefnd því verið að skoða málið og leita sér gagna um sambærileg atvik.
 
Ekkert er í reglum ÍHÍ um að lið geti gefið leik, en í reglum aganefndar er ákvæði 8.11.5 um að ef lið mæti ekki til leiks og í leikreglum er ákvæði um refsingu ef lið neitar að spila eða mætir ekki á ís. (regla 566 og 567 ). Öll þessi ákvæði bera það með sér að það lið sem ekki mætir eða yfirgefur leikvöll telst hafa brotið af sér. Ekki fundust sérstök ákvæði í reglum annarra sérsambanda, nema hjá KSÍ.
Í reglum aganefndar KSÍ er að finna eftirfarandi reglu;
9. 2.      Félagslið brýtur af sér, ef það yfirgefur leikvöll í mótmælaskyni eða neitar að halda leik áfram. Refsing við því getur orðið brottrekstur úr keppni, stigatap, leikbann á öllum leikmönnum liðsins og sektir allt að kr. 100.000.
 
Í ljósi þessa telur aganefndin að lið Bjarnarins hafi gerst brotlegt með því að gefa leikinn og yfirgefa leikvöllinn. Þar sem ekkert fordæmi er fyrir svona atviki þykir ekki rétt að dæma félagið í  harða refsingu heldur nota þetta mál sem fordæmi og um leið tilkynningu um að framvegis verði tekið mun harðar á þessum málum og þá jafnan litið til ofangreindrar reglu KSÍ. Einnig má benda á að í nýrri reglugerð um aganefnd, gr. 8.15 er heimild að beita fésektum ef lið yfirgefur leikvöll í miðjum leik.
 
Varðandi önnur atriði er upp komu í leiknum og í kringum hann vill aganefnd ítreka enn  og aftur skoðun sína á aðstöðu í skautahöllunum og umgjörð leikjanna, en í því felst að hafa næga gæslu og eftirlit í áhorfandastúkunum og að næg gæsla sé við refsiboxin þannig að ekki sé hægt er að trufla leikmenn, einnig að dómarar hafi góðan aðgang að sinni aðstöðu án þess að almennir áhorfendur hafi möguleika á beinni truflun. Bent er á að eðlilegt er að mótanefnd taki út alla aðstöðu í skautahöllum og geri tillögur til stjórnar ÍHÍ sem setji sem fyrst nánari reglur um gæslu og aðbúnað á leikjum í íshokkí.
Þá er mikilvægt er að mótanefnd ákvarði leiktíma með góðum fyrirvara og ekki sé verið að færa hann til og þá sérstaklega ekki á kostnað upphitunartíma eða undirbúningstíma liðanna sem eiga að leika. Þá sé öll umgjörð leiksins samkvæmt reglum ÍHÍ og ef ekki tekst að uppfylla þær sé öllum aðilum sem koma að leiknum gert það ljóst og samþykkis þeirra aflað ef hægt er að veita undanþágur. Þá ber líka að ítreka að um leið og dómari hefur fellt dóm ber að hlýða honum og að dómara ber ekki að útskýra dóma sína fyrir leikmönnum í leiknum.
 

Úrskurður Aganefndar

Lið Bjarnarins hefur gerst brotlegt með því að gefa leikinn og yfirgefa leikvöllinn og er því hér með gert að greiða í sekt kr. 20.000 ,-. Er sektarupphæðin táknræn og ekki fordæmisgefandi.

Reykjavík  11. febrúar 2004
 
Aganefnd ÍHÍ
 
Bjarni Kr. Grímsson,  Kristján Maack, Jón Heiðar Rúnarsson