Tekin er fyrir atvikaskýrsla dómara frá leik FJO og SA í Topp deild karla, sem leikin var í Egilshöll. 11. Nóvember 2025. Nefndin hefur leikskýrslu leiks, atvikaskýrslu dómara og upptöku frá beinu streymi leiksins til þess að meta atvikið og byggir úrskurð sinn á þessum gögnum.
Málsatvik:
Leikmaður SA númer 14 er í skyndi sókn og komin inn í varnarsvæði Fjölnis þegar leikmaður Fjölnis númer 14 stöðvar hann með tæklingu þannig að hann fellur. Í kjölfarið kemur leikmaður SA númer 28 og ræðst að leikmanni Fjölnis númer 14. Upp úr þessu hefjast átök víða í varnarsvæði Fjölnis sem nefndin hefur eftir bestu getu og út frá streymi leiksins reynt að meta. Ekki er hægt að sjá að tækling sú er leikmaður Fjölnis #14 tók í upphafi þessa atviks sé á einhvern hátt ólögleg. Hins vegar er Supermann flug hans og hnefahögg í kjölfarið ekki í samræmi við reglur leiksins. Leikmaður SA #28 er upphafsmaður af þessum átökum auk þess að hann slær með báðum höndum aftan í hnakka andstæðings í þvögunni sem myndaðist.
Dómari leiksins vísaði leikmönnum SA #22 #71 og #28 ásamt leikmönnum Fjölnis #25 #27 og #14 út úr leiknum í samræmi við reglu 46
Aganefnd hefur skoðað gögn málsins gaumgæfilega og byggt á ofansögðu, úrskurðar eftirfarandi.
Úrskurður
Leikmaður SA númer 28, Unnar Rúnarsson og leikmaður Fjölnis númer 14, Bergþór Ágústsson hljóta einn leik í bann hvor. Nefndin telur brottvísun úr leiknum vera fullnægjandi refsingu fyrir aðra.