Stjórn ÍHÍ, nefndir og vinnan framundan

Íshokkíþing 2023 var haldið 13. maí síðastliðinn, í Pakkhúsinu á Akureyri.  Ný stjórn ÍHÍ var kosin, þar var Helgi Páll Þórisson kosinn formaður og Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir, Bergur Jónsson, Hilmar Freyr Leifsson og Olgeir Olgeirsson kosin meðstjórnendur. Ingólfur Tryggvi Elíasson, Sigrún Agatha Árnadóttir og Arnar Þór Sveinsson kosin í varastjórn.

Stjórn ÍHÍ var kosin til tveggja ára eða fram að íshokkíþingi 2025. Stjórnin hefur nú þegar tekið til starfa og á fyrsta stjórnarfundi var samþykkt samhljóða að Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir verður varaformaður ÍHÍ.

Búið er að skipa í helstu nefndir sambandsins ásamt skipun landsliðsmála;

Aganefnd; Viðar Garðarsson verður formaður aganefndar, í aganefnd verða einnig Vilhelm Már Bjarnason og Árni Geir Jónsson, varamenn Bjarni Baldvinsson og Hanna Rut Heimisdóttir. Aganefnd er skipuð tvö ár í senn, eða að næsta íshokkíþingi.

Laganefnd; Bergur Jónsson verður formaður laganefndar og hann mun velja sér fulltrúa aðildarfélaga ÍHÍ ásamt Ingólfi Tryggva Elíassyni til að rýna nokkrar reglugerðir sem íshokkíþing lagði til að yrðu lagfærðar ásamt breytingu á 6.gr. laga ÍHÍ um fjölda fulltrúa á íshokkíþingi. 

Mótanefnd; Ari Gunnar Óskarsson, Erla Guðrún Jóhannesdóttir og Sigrún Agatha Árnadóttir skipa mótanefnd. Mótanefnd mun skila af sér mótaskrá næsta tímabils til aðildarfélag í lok júní 2023 og verður hún þá birt á heimasíðu ÍHÍ.

Dómaranefnd; formaður nefndarinnar er Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir og yfirdómari sambandsins verður Sindri Gunnarsson. Allir dómarar ÍHÍ eiga sæti í dómaranefnd og stefnt er á reglulega fundi nefndarinnar. Reglunámskeið og próf verða sett upp fyrir aðildarfélög ásamt dómaraprófi fyrir nýja aðila sem hafa áhuga á að dæma á næsta tímabili. Einnig er stefnt á að ný heimasíða dómaranefndar verði sett upp þar sem helstu reglur verða birtar ásamt fjölmörgum kennslumyndböndum og öðru tengt íshokkí dómgæslu.

Landsliðsnefnd; formaður ÍHÍ, Helgi Páll Þórisson mun veita nefndinni formennsku. ÍHÍ óskar eftir aðilum í nefndina, helstu verkefni eru að vinna að nýrri reglugerð um landsliðsnefnd, aðstoða við landsliðsæfingar og landsliðsferðir ásamt ígrundun um hvað sé hægt að gera betur og öðruvísi til að efla framgang landsliða, frekari árangur og markmið/þróun næstu ára, rýna hverjir hafa áhuga og getu til að vera landsliðsþjálfarar og í öðrum hlutverkum landsliða svo sem liðsstjóra, tækjastjóra, sjúkraþjálfara, ljósmyndara oþh. Hlutverk landsliðsnefndar er einnig vinna við afreksstefnu, vinnu við umsókn í afrekssjóð ÍSÍ, kanna fjármögnunarleiðir og hvernig framtíðar afreksmálum verði háttað.

Markaðsnefnd; formaður nefndarinnar er Helgi Páll Þórisson og í nefndinni geta verið allir sem hafa áhuga á markaðsmálum og hvernig best sé að markaðssetja íshokkí á Íslandi. Í nefndinni eru í dag Bjarni Helgason, Eiríkur Þórðarson, Stefán Oddur ásamt Jiri Sedlácek. Bjarni Helgason er að vinna að nýjum vefborðum fyrir Hertz-deildirnar og fjölmargar hugmyndir eru varðandi aukinn sýnileika íþróttarinnar á samfélagsmiðlum, nýjum möguleikum í streymi oþh. Ljósmyndarar hreyfingarinnar og markaðsfólk almennt er velkomið að hafa samband við Helga Pál og taka þátt í þessu skemmtilega verkefni.

Mannvirkjanefnd; undanfarin misseri höfum við verið í samtali við nokkur sveitarfélög um byggingu nýs skautasvells og nú munum við færa þessa vinnu á nýtt level. Helgi Páll Þórisson, Birkir Árnason, Pétur Maack, Hallur Árnason og Jón Benedikt Gíslason hafa tekið höndum saman um að rýna þessi mál á komandi tímabili. Við stefnum á að gefa út nýjar teikningar, útreikninga á byggingakostnaði og rekstur skautahallar og kynna þessi gögn til allra sveitarfélaga og fyrirtækja sem hugsanlega hafa burði í að reisa skautasvell og reka skautaíþróttafélag eða deild innann núverandi íþróttafélaga. ÍHÍ verður að fá nýtt svell og nýjan klúbb til að uppfylla lágmarkskröfur alþjóða íshokkísambandsins. ÍHÍ óskar eftir fleirum aðilum í þessa nefnd og áhugasamir einstaklingar mega endilega hafa samband og taka þátt.

Heiðursveitinganefnd; Íshokkíþing 2023 samþykkti nýja reglugerð og nefnd sem hefur það að meginmarkmiði að skrá og halda til haga upplýsingum um alla þá sem hafa unnið verulega mikið og gott starf fyrir hreyfinguna í gegnum áratugina. Í nefndinni eru formenn aðildarfélaga ÍHÍ ásamt fulltrúum stjórnar ÍHÍ.

Kvennanefnd; nefnd um íshokkí kvenna. Á vordögum 2023 var skipaður nýr hópur sem hefur það  að megin markmiði að efla kvennahokkí og alla umgjörð um íshokkí kvenna. Nefndin skipar Bjarni Helgason, Elísabet Ásgrímsdóttir, Sigrún Agatha Árnadóttir, Inga Rakel Aradóttir, Erla Guðrún Jóhannesdóttir og Guðlaug Ingibjörg Þorsteinsdóttir. Sigrún Agatha er formaður nefndarinnar og tengiliður við stjórn ÍHÍ. Nefndin mun vinna samkvæmt reglugerð ÍHÍ um íshokkí kvenna og við væntum þess að sjá mikinn árangur nefndarinnar enda er eitt mesta sóknarfæri íshokkí á íslandi fólgin í fjölgun stelpna í okkar frábæru íþrótt.

Skemmtinefnd; Sigrún Agatha Árnadóttir er formaður nefndarinnar og henni til aðstoðar er Ingólfur Tryggvi Elíasson. Stefnt er að árlegum viðburði þar sem hreyfingin kemur saman og skemmtir sér í bland við nýstárlegt helgarmót í hokkí þar sem flestir fá að njóta sín.  Sigrún Agatha tekur á móti umsóknum í nefndina, enda hlýtur að vera sérstaklega gaman að vera á skemmtinefndarfundum. Nefndin mun koma með tillögur til stjórnar ÍHÍ um dagskrá þessa viðburðar.

Landsliðin; Stjórn ÍHÍ samþykkti að Vladimir Kolek verði aðalþjálfari landslið karla, U20 og U18 drengja og að Jón Benedikt Gíslason verði aðalþjálfari landslið kvenna og hafi yfirumsjón yfir þjálfaramálum U18 kvenna.

  • Stjórn ÍHÍ auglýsir hér með eftir áhugasömum aðilum sem hafa áhuga á að vera aðstoðarþjálfarar í landsliðum Íslands í íshokkí.
  • Einnig er opið fyrir umsóknum í hlutverk liðsstjóra, tækjastjóra, ljósmyndara og sjúkraþjálfara/kírópraktor/læknir. Áhugasamir hafi samband á ihi@ihi.is

Verkefnin framundan;

  • Landslið karla tekur þátt í undankeppni Ólympíuleikanna, OQM Round 2, 14. -17. desember 2023. Þátttökuþjóðir eru Eistland og Búlgaría, ásamt vinningsliði í Round 1. Vinningsliðið í þessum riðli tekur þátt í Round 3, 8.-11. febrúar 2024.
  • Landslið karla tekur þátt í HM 2. deild A, haldið í Belgrad, Serbíu 21.-27. apríl 2024.
  • Landslið kvenna tekur þátt í HM 2. deild A, haldið í Puigerda, Spáni, 18.-24. mars 2024.
  • Landslið U20 drengja tekur þátt í HM 2. deild B, haldið í Novi Sad, Serbíu, 14.-20. janúar 2024.
  • Landslið U18 drengja tekur þátt í HM 3. deild A, haldið í Istanbúl, Tyrklandi, 4.-10. mars 2024.
  • Landslið U18 stúlkna tekur þátt í 4Nations, Jaca, Spáni 9.-12. nóvember 2023,  (dagsetning getur breyst).
  • Landslið U18 stúlkna tekur þátt í HM 2.deild B, Sofia, Búlgaríu, 8.-14. janúar 2024.
  • Íslandsmótin, Hertz-deild karla og kvenna, Íslandsmót U18, U16 og U14, ásamt helgarmótum U12, U10 , U8 og U16stúlkna.

Landsliðs starfið er mjög stór þáttur í starfi ÍHÍ og mikilvægt að fá öfluga aðila í alla umgjörð æfinga og ferða. Áhugasamir einstaklingar í stöðu aðstoðarþjálfara, tækjastjóra, liðsstjóra, heilbrigðisfagteymi og ljósmyndara/media hafið samband og skráið ykkur inn. Vinsamlega senda upplýsingar á ihi@ihi.is.