Kristín Hólm með sérsniðinn fyrirlestur fyrir æfingahóp kvennalandsliðsins

Kristín Hólm Geirsdóttir
Kristín Hólm Geirsdóttir

Á milli jóla og nýárs voru æfingabúðir hjá æfingahópi kvennalandsliðsins.  Kristín Hólm Geirsdóttir heimsótti þær með sérgerðan fyrirlestur þar sem var tekið fyrir hvað þær gætu gert sjálfar til þess að styrkja sig enn frekar og flýta fyrir endurheimt en flestar þessara íþróttakvenna vinna ekki með sérstökum styrktarþjálfara hjá félagsliðum sínum. 

Kristín hefur getið sér gott orð fyrir að vera styrktarþjálfari Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún hefur verið að vinna með Elísabetu Gunnarsdóttur.  Árangur hennar með Kristianstad liðið hefur vakið mikla athygli, en ekkert lið í Svíþjóð hefur náð öðrum eins árangri með fyrirbyggjandi úrræði fyrir leikmenn sína. Þessi góði árangur varð síðan til þess að sænska knattspyrnu sambandið réði Kristínu sem sérstakan styrktarþjálfara fyrir undir 23 ára landslið kvenna auk þess að annast styrktarþjálfun fyrir aðra yngri leikmenn. Störf hennar þar hafa vakið mikla athygli. En hún hefur meðal annars verið að útbúa fræðsluefni um áhrif tíðarhringsins á getu íþróttakvenna fyrir bæði leikmenn og þjálfara.

Fyrirlestur Kristínar var mjög áhugaverður fyrir hópinn okkar og margar spurningar komu fram eftir fyrirlesturinn. 

Kristín er Akureyringur, með Bs próf í Sport Coaching and Performance frá Waterford Institute of Technology á Írlandi og svo meistarapróf MSc frá University of Lincoln, í Bretlandi í Sport Science.