Íshokkísambandið og Kristín Hólm Geirsdóttir hafa samið um að Kristín verður styrktarþjálfari kvenna landsliða Íshokkísambandsins. Kristín hefur vakið mikla athygli í Svíþjóð síðustu ár. Hún starfar í dag hjá sænska knattspyrnusambandinu sem frammistöðustjóri (performance manager) fyrir A landslið kvenna, sem er jú eitt af betri kvenna knattspyrnuliðum heims.
Þar sem Kristín er búsett í Stokkhólmi verður þetta fyrst og fremst fjarþjálfun, en Kristín verður hér heima á íslandi frá 12. des til 5. janúar og mun á þeim tíma ná að hitta æfingahópa kvenna landsliða.
Kristín er ekki alveg ókunnug hreyfingunni okkar. Hún hélt fyrirlestur fyrir kvennalandsliðið á milli jóla og nýárs 2024 sem mikil ánægja var með. Þar var tekið fyrir hvað leikmenn gætu gert sjálfar til þess að styrkja sig enn frekar og flýta fyrir endurheimt.
Kristín hefur getið sér gott orð fyrir að vera um árabil styrktarþjálfari Kristianstad í Svíþjóð þar sem hún hefur verið að vinna með Elísabetu Gunnarsdóttur. Árangur hennar með Kristianstad liðið hefur vakið mikla athygli, en ekkert lið í Svíþjóð hefur náð öðrum eins árangri með fyrirbyggjandi úrræði fyrir leikmenn sína. Þessi góði árangur varð síðan til þess að sænska knattspyrnu sambandið réði Kristínu, fyrst sem sérstakan styrktarþjálfara fyrir undir 23 ára landslið kvenna, og síðan í vor var síðan samið við hana um þessa nýju stöðu hjá sænska sambandinu. „Þetta eru frábærar fréttir og mikill fengur fyrir það uppbyggingarstarf sem verið hefur í gangi með kvenna landsliðin okkar síðustu ár“ segir Jón Benedikt Gíslason aðalþjálfari A-landsliðs kvenna.
Kristín er Akureyringur, með Bs próf í Sport Coaching and Performance frá Waterford Institute of Technology á Írlandi og svo meistarapróf MSc frá University of Lincoln, í Bretlandi í Sport Science.
