Í umræðum á samfélagsmiðlum síðustu daga, er áberandi að ekki virðist vera almenn vitneskja á því hvernig Topp deild karla verður leikin á komandi tímabili. Rétt er hér að útskýra hvernig núverandi fyrirkomulag er tilkomið og sett upp.
Á Íshokkíþingi sem haldið var í sumarbyrjun samþykkti öll hreyfingin að sett yrði af stað Junior deild. Það varð raunin hjá Fjölni og Skautafélagi Akureyrar en Skautafélag Reykjavíkur ákvað að tefla ekki fram Junior liði að svo stöddu. Það varð síðan ljóst um mitt sumar að Skautafélag Hafnarfjarðar fengi ekki æfingatíma og gæti ekki verið með lið í Topp deildinni á tímabilinu. Samkvæmt lágmarks skilyrðum sem við þurfum að uppfylla frá Alþjóða Íshokkísambandinu þurfum við að leika 4 liða deild í karlaflokki og Junior flokki.
Eftir að hafa skoðað alla mögulega kosti í erfiðri stöðu vegna aðstöðuleysis og brotthvarfs SFH, varð sú lausn sem leikið verður eftir í vetur ofan á. Hún er svona:
Topp deild karla og Junior deild verður blandað saman þannig að allir leika við alla eina umferð eða 10 leiki. Þetta verður svokölluð forkeppni. Forkeppnin er notuð til þess að styrkleikaskipta þeim liðum sem hefja leik, í A-flokk mfl karla og B-flokk Junior deild. Deildin er síðan leikinn styrkleikaskipt út tímabilið. Þannig að eftir forkeppni þá leika Junior lið og mfl lið aldrei saman aftur.
Eftir forkeppnina hefst semsagt hin hefðbundna deildarkeppni, bæði í mfl karla og Junior deildinni, þar sem liðin byrja með hreint borð og taka ekkert með sér úr forkeppni. Hvorki stig fyrir félagið eða punkta fyrir leikmenn. Með þessari ráðstöfun uppfyllum við þau alþjóðlegu skilyrði sem okkur ber og eru hreyfingunni mjög mikilvæg.
Rétt er að taka fram hér í lokin að Junior liðin hafa nokkuð víðtækar heimildir til þess að styrkja sig með mfl leikmönnum síns félags í forkeppninni þegar þau leika við meistaraflokks lið. En það gerist þrisvar sinnum nú í upphafi tímabils á meðan forkeppnin gengur yfir.