Four Nations - fyrsti dagur

Kolbrún Garðarsdóttir, fyrirliði U18 liðs Íslands
Kolbrún Garðarsdóttir, fyrirliði U18 liðs Íslands

Í dag hófst Four Nations-mótið í Laugardalnum með leik Spánar gegn Stóra Bretlandi. Nokkur eftirvænting var fyrir þennan fyrsta leik þar sem undirbúningur fyrir þetta mót hefur verið þónokkur undanfarna mánuði og tvísýnt var með hvort af mótinu yrði sökum COVID-19. En liðin komu til landsins núna í vikunni og náðu að taka nokkrar æfingar áður en mótið hófst. Fyrir leik Spánar og Bretlands var talið að þær bresku mundu vera nokkuð sterkari ef marka má samfélagsmiðlaumfjöllun breska íshokkísambandsins en þeir hafa verið mjög virkir á samfélagsmiðlum þar sem sýnt hefur verið frá undirbúningi liðsins frá því í síðasta mánuði. Einnig stóð kvennalandslið Bretlands sig nokkuð vel í undankeppni Ólympíuleikanna þar sem kvennalandslið Íslands keppti á núna nýverið. En þær spænsku mættu nokkuð ákveðnar til leiks og voru kvikari og skipulagðari í leik sínum allt frá fyrstu mínútu og í raun áttu þær bresku fáa sénsa í leiknum. Leikurinn endaði með sannfærandi sigri Spánar 4 - 0.

Næsti leikur dagsins var leikur Íslands gegn Póllandi. Þar sem íslenska liðið er nýtt í þessum flokki var ekki vitað með fullri vissu hvar þær stæðu á móti þessum liðum sem á mótinu keppa. Nokkuð ljóst var að þessi leikur yrði erfiður fyrir okkar stelpur þar sem Pólland er í deild fyrir ofan þá deild sem við munum keppa í í janúar á næsta ári. En íslenska liðið sýndi það í kvöld að þær eru engvir aukvisar og tóku þéttingsfast á móti þeim pólsku sem áttu á köflum í stökustu vandræðum með okkar stelpur sem spiluðu vel allann leikinn, sér í lagi manni undir þar sem þær gáfu þeim pólsku enga sénsa. Leikurinn var æsispennandi allt til loka sem endaði með naumum sigri Póllands, 3 - 2. Lara Jóhannsdóttir og Hilma Bergsdóttir skoruðu mörk Íslands. Kolbrún Garðarsdóttir var síðan valin besti leikmaður íslenska liðsins í leikslok.

Næstu leikir eru á morgun, föstudaginn 12. nóvember, og er fyrri leikur dagsins kl.17:30 á milli Bretlands og Póllands og í seinni leik morgundagsins tekur Ísland á móti Spáni og hefst sá leikur kl.20:30 í Skautahöllinni í Laugardal.

Hægt er að nálgast tölfræði mótsins hér og einnig bendum við á Youtube-rás ÍHÍ og einnig samfélagsmiðla ÍHÍ á Facebook og Instagram þar sem hægt er að fylgjast með undibúningnum hjá íslenska liðinu og aðrar svipmyndir frá mótinu.