Hertz-deild kvenna, SA-RVK laugardaginn 17.nóvember 2018

Myndataka; Elvar Freyr Pálsson
Myndataka; Elvar Freyr Pálsson

Þriðji leikur í Hertz-deild kvenna fór fram á Akureyri laugardaginn 17.nóvember  og vann Skautafélag Akureyrar sannfærandi sigur á liði Reykjavíkur, 7-0. Markmenn SA höfðu ansi lítið að gera þar sem Reykjavík átti 11 skot á mark Skautafélags Akureyrar á móti 69 skotum sem SA átti á Karítas Halldórsdóttur, sem stóð vaktina í marki Reykjavíkur. Átti hún á köflum stórleik og sýndi flott tilþrif á milli stanganna.

Fyrsta lota fór 3-0, voru það varnamennirnir Eva Karvelsdóttir og Teresa Snorradóttir sem sáu um að skora mörkin en norðankonur voru í sókn alla lotuna og stjórnuðu leiknum.

Önnur lota var með svipuðu sniði, því einnig skoruðu Skautafélagskonur þrjú mörk í lotunni, þar á meðal skoraði Silvía Björgvinsdóttir glæsilegt mark af bláu línunni þegar heimakonur voru einni fleiri. Hin mörkin tvö skoruðu Eva Karvelsdóttir og Ragnhildur Kjartansdóttir.

Þriðja lota var að mestu tíðindalítil, hluti SA liðsins spilaði ekki lotuna og segja má að allur vindur var horfinn úr báðum liðum. SA kom pekkinum í netið einu sinni og var þar að verki Teresa Snorradóttir á ný, með sitt þriðja mark í leiknum. Teresa er varnarmaður sem spilaði sem framherji í þetta sinn og gerði það með stakri prýði.