Úrskurður aganefndar 19.12. 2008 (fundargerð)

Tekin er fyrir atvikaskýrsla úr leik Skautafélags Reykjavíkur og Bjarnarins sem leikinn var 03.12.2008. Í leiknum hlaut leikmaður Skautafélags Reykjavíkur nr. 4, Helgi Páll Þórisson, tvo tíu mínútna áfellisdóma (Misconduct) fyrir að mótmæla dómi, og því sjálfkrafa brottvísun úr leiknum (Game Misconduct).
Úrskurður: Brotið færist til bókar og við aðra brottvísun úr leik fer leikmaðurinn sjálfkrafa  í eins leiks bann. 

 
Tekin var fyrir atvikaskýrsla úr leik Bjarnarins og Skautafélags Reykjavíkur í 3ja flokki kalra sem leikinn var 16.12.2008. Í leiknum hlaut leikmaður nr. 19 Ólafur Árni Ólafsson Major dóm sem sjálfkrafa leiðir til brottvísunar úr leik (Game Misconduct).
Úrskurður: Brotið færist til bókar og við aðra brottvísun úr leik fer leikmaðurinn sjálfkrafa  í eins leiks bann.

 
Tekin er fyrir atvikaskýrsla úr leik Bjarnarins og Skautafélags Akureyrar sem leikinn 06.12.2008. Í leiknum hlaut þjálfari Bjarnarins brottvísun úr leik (Game Misconduct). Eftir dóminn þverskallaðist þjálfari Bjarnarins við það að fara inn í búningsherbergi þrátt fyrir að dómari leiksins hafi ítrekað bent honum á, að honum bæri að hlíða þeim fyrirmælum.
Úrskurður: Þjálfari Bjarnarins Sergei Zak hlýtur eins leiks bann í mfl kvenna og til samræmis við vinnureglur aganefndar að ef leikð er í mfl karla áður en til kvenna leiksins kemur skal Sergei Zak taka út einn leik í meistaraflokki karla.

 
Aganefnd ákvað að refsa mildilega í þetta sinn þar sem að nokkur almennur ruglingur virðist vera meðal þjálfara og leikmanna um það hverjar skyldur þeirra eru ef þeim er vísað úr leiknum. Að gefnu tilefni vill aganefnd koma frá sér eftirfarandi áréttingu. 
 
Enn ber á því að leikmenn sem fá útilokun úr leik drífa sig í föt og fara upp í áhorfendastúku. Aganefnd mun beina því til dómara, eftirlitsdómara og dómaranefndar að hart verði tekið á þessu og frá og með áramótum verði engar undanþágur gerðar. Leikmenn, þjálfarar eða aðrir starfsmenn liðsins skulu, samanber reglur 505 og 507 úr reglubók og samkvæmd túlkun gr. 5 á bls. 68 í Case book IIHF, halda strax til búningsklefa fái þeir útilokun úr leiknum. Eftir það geta leikmenn valið um hvort þeir haldi sig í búningsklefanum fram að leikslokum eða þeir  geta yfirgefið keppnisstað. Ef eftir brottvísun úr leik sjáist leikmaður eða starfsmaður liðs í áhorfendastúku eða fyrir utan búningsklefa mun aganefnd meta slíkt framferði til þyngingar refsingar.  
 
Aganefnd hafa einnig borist nokkrar ábendingar sem nefndin vill bregðast við og árétta. 
 
Í fyrsta lagi vill aganefnd ítreka fyrir félögunum að starfsmenn leiksins, starfsmenn liðanna og áhorfendum er með öllu óheimilt að opna hlið eða koma inn á ísinn nema að fá til þess leyfi dómara. Undantekning frá þessu eru hliðverðir í refsiboxum sem hafa heimild til þess að opna refsiboxin til þess að hleypa inn leikmönnum sem hafa klárað refsitíma sinn. Það er á ábyrgð hvers heimaliðs að hafa fullnægjandi gæslu til þess að stöðva að svona atvik geti átt sér stað. 
 
Í örðu lagi er það á ábyrgð heimaliðs að hafa fullnægjandi gæslu í og við refsibox þannig að leikmenn og áhorfendur séu aðskildir undir öllum kringumstæðum.
Í þriðja lagi krefst aganefnd þess að íshokkísambandið gangi eftir því við aðildarfélög að þau fylli út fylgigagn við leikskýrslu þar sem starfsmenn hvers liðs eru skráðir. Dómurum verður uppálagt að ganga eftir því að einungis þeir sem skráðir eru á þetta plagg geti verið á leikmanna-bekk. 
Hér er um mikilvægt öryggisatriði að ræða þar sem svæðið í kringum leikmannabekkinn er eina svæðið í kringum ísinn sem er óvarið. Starfsmenn liðsins eiga að vera meðvitaðir af hættunni sem getur ríkt og tryggja þarf að óviðkomandi aðilar séu ekki á eða við leikmanna-bekki. Dómarar verða því beðnir að ganga úr skugga um að einungis þeir sem skráðir eru á leikskýrslu sem leikmenn og eða starfsmenn liðsins séu á leikmannabekkjum og aðrir ekki. Gildir þá einu í hvaða flokki er verið að leika.
 
 
Reykjavík 19 desember 2008

Fh. aganefndar
Halmundur Hallgrísson ritari.