Fréttir að utan

Við sögðum frá því nýlega að tvær hokkístelpur þær Hrund Thorlacius og Margrét Vilhjálmsdóttir (MV) væru á leið til til dvalar  í svokallaðar Æfinga- og fræðslubúðir á vegum IIHF (Hockey Development Camp). Reyndar bættist þriðja manneskjan við í ferðina en þar er á ferðinni Margrét Ólafsdóttir (MÓ) gjaldkeri ÍHÍ og fararstjóri kvennalandsliðsins ár. MÓ fór á svokallað leiðtoganámskeið sem eimitt er ætlað fararstjórum og fólki sem sér um utanumhald hverskonar. Við fengum póst frá MÓ en þar segir m.a. “Við stelpurnar erum í stífri dagskrá en það skín gleði af hverju andliti og þetta er frábært tækifæri til þess að kynnast hokkíheiminum betur. Í gangi eru 15 mismunandi dagskrár, æfingabúðir og námskeið. Þátttakendur er næstum 300 frá yfir 35 þjóðlöndum, allt frá leikmönnum til yfirstjórnenda. Liðin eru blönduð stúlkum frá ýmsum þjóðlöndum og eru íslensku stúlkurnar t.d. í sitthvoru liðinu og búa ekki einusinni nálægt hvor annarri. Hvert lið hefur þjálfara, og þrjá þjálfaralærlinga, tækjastjóra og framkvæmdastjóra (Team Manager) sem eru allir á sínu námskeiði.” Margrét segir að mjög vel sé hugsað um stelpurnar, þeim hafi verið skipt niður í lið og spili Margrét með svarta liðinu en Hrund því rauða. Þarna er því kjörið tækifæri fyrir Hrund og Margréti sem báðar eru ungar að árum til að fræðast um eitt og annað sem viðkemur leiknum. Ekki er síður mikilvægt fyrir þá sem sjá um ýmisskonar utanumhald nái að bæta sífellt við þekkingu sína en á leiðtoganámskeiðinu sem Margrét Ólafs sækir eru um 30 þáttakendur frá 17 löndum. Erindi hafa verið haldin um þróun kvennaíshokkís og daginn sem MÓ skrifaði okkur var Julie Healy  framkvæmdastjóri Kanadíska kvennahokkísins með mjög fróðlegt erindi um menntun og fræðslu.
 
Eftir árangur kvennalandsliðsins á síðasta heimsmeistaramóti, sem var töluvert umfram þær væntingar sem til þeirra var gerður, eru því ýmsir möguleikar í stöðunni. Við þurfum því að sækja fram, fá inn stelpur sem hafa áhuga á að prófa og reyna á alla vegu að auka þátt kvennahokkís. Stelpur sem t.d. hafa verið í öðrum vetraríþróttum gæti verið einn af þeim hópum sem við eigum að reyna ná til.
 
Við sendum þeim stöllum bestu kveðjur til Finnlands og bendum á fleiri myndir sem við fengum sendar en þær sýna að allt sem finnarnir gera varðandi íshokkí er gert með stæl. Einnig má benda á að á heimasíðu Alþjóða íshokkísambandsins er fjallað um búðir þessar og má finna dagbókarlink um þær hérna.
 
HH.