Áramótapistill


Á sama tíma fyrir ári skrifaði ég grein hérna á heimasíðu ÍHÍ sem ég nefndi, rétt eins og þessa, áramótahugleiðingu. Þar fór ég yfir það helsta sem ég hafði orðið áskynja á þeim fjórum mánuðum sem ég hafði verið við störf. Nú hafa aðrir tólf mánuðir bæst við og því mánuðurnir orðnir sextán sem ég hef unnið hjá hreyfingunni. Aftur ætla ég að fara yfir það helsta sem á daga okkar hefur drifið.

Mótamál 
Á ýmsu gekk fyrripart árs varðandi mótamál og segja má að mótaskráin hafi verið svolítið i lausu lofti fyrstu mánuðina á árinu. Smá saman varð nú ástandið samt betra og undir lok síðasta tímabils var það orðið vel viðunandi. Mótinu lauk eins og áður með úrslitakeppni og var hún mikil lyftistöng fyrir íshokkí. Eins og flestir áhugamenn vita endaði hún í hádramtík, fimm leikjum, framlengingu og vítakeppni. Við verðlaunaafhendingu, í öllum aldursflokkum, voru afhentir verðlaunapeningar sem mótanefnd hafði látið útbúa og var afsteypa af merki ÍHÍ. Seint í júlí hófst síðan undirbúningur að næstu mótaskrá sem verið er að keyra núna. Til að byrja með gekk undirbúningur að henni vel en þegar margir koma að þá vill flækjustigið verða ansi mikið. Mótanefnd lagði mótaskránna fyrir félögin sem komu með breytingar og lögðu fyrir hallirnar sem komu með breytingar. Við höfum nú ekki farið yfir mótaskránna en ég yrði ekki undrandi þótt 40% af henni hefðu breyst frá upphaflegum hugmyndum. Það er hægara sagt en gert að ráða við þetta og ekki þarf mótaskráin að stoppa nema í einu félagi eða höll og þá er gerð hennar einfaldlega stopp. Liðin sem áttu að leika jafnt og þétt voru nú farin að leika í belg og biðu. Vonandi tekst samt að gera enn betur næst og ná meiri jöfnuði í mótaskrá. Minna hefur borið á tilfæringum og frestunum heldur en á síðasta ári og er það vel. ÍHÍ og mótanefnd hennar, stóð ásamt Birninum, fyrir hraðmóti sem nefnt var Aseta-mótið í upphafi núverandi tímabils og er þetta að því er ég best veit nýjung í okkar starfi. Mjög vel tókst til og er nokkuð víst að leikurinn verður endurtekinn í upphafi næsta tímabils.

Dómaramál
Dómaramál eru vinsælt umræðuefni í íshokkí rétt einsog í öðrum íþróttum. Nú síðast var ég að lesa um þjálfara í kvennahandboltanum sem dæmdur var í 3ja mánaða bann eftir að hafa tjáð sig um dómaramál. Hann er æfur og hótar að fara með málið í Hæstarétt. Á Íshokkíþingi í ágúst sl. kom Viðar Garðarsson formaður ÍHÍ svolítið inná þetta mál enda er málið líka til umræðu út í hinum stóra íshokkíheimi. Þar vilja einhverjir halda því fram, og hafa sjálfsagt nokkuð til síns máls, að dómaravandamálið sé ekki síður þjálfara- og leikmannavandamál.
Segjum nú að leikmaður komist upp með fólskulegt brot á andstæðingi sínum, hvað gerist þá? Er hann settur á bekkinn í refsiskyni af sínum eigin þjálfara eða fær hann klapp á bakið? Þessi sami leikmaður fær svo á sig fólskubrot síðar, án þess að dómarinn sjái brotið. Þá er ekki jafnmikilli ánægju fyrir að fara hjá leikmanninum og þjálfaranum. Er vandamálið dómarinn eða þurfa leikmenn og þjálfarar kanski að fara líta sér aðeins nær? Þjálfarar og leikmenn geta bara ekki í hvert skipti sem þeir tapa leik komið sökinni yfir á dómarann. Ég hef heyrt í þjálfurum og leikmönnum einni og hálfri stund fyrir leik þar sem þeir eru byrjaðir að kvarta yfir dómaranum. Hvernig í ósköpunum vita þeir um frammistöðu dómarans svona löngu fyrir leik? Með því er ég ekkert að segja að dómarar séu yfir gagnrýni hafnir en það er nú bara þannig í þessari ungu íþrótt okkar að dómarar með reynslu eru af skornum skammti. Við reynum eftir bestu getu að bæta úr t.d. með námskeiðum og nú um áramótin verður eftirlitsmaður á hluta af leikjum. En ef hugarfarið er það að dómarinn sé upphaf og endir alls þess sem aflaga fer í leiknum þá sjá menn einfaldlega ekki flísina í eigin auga.

Útbreiðslumál
Ef íshokkí sem íþrótt ætlar að eiga möguleika þá þarf hún að stækka og það mun hún gera. Til þess þarf tvennt, fleiri skautasvell og fleiri iðkendur. Allt voðalega einfalt á blaði en aðeins erfiðara að koma í framkvæmd. Reyndar vil ég trúa því að þessa mánuðina séum við að bæta við okkur iðkendum. Vandamálið er ennþá að sannfæra stjórnmálamenn á sveitastjórnarstiginu um að nú sé nóg komið að sparkvöllum og öðrum boltamannvirkjum og tími til kominn að byggja skautasvell. Hafist var handa við að koma upp mótakerfi sem í daglegu tali hefur verið nefnt “danska kerfið”. Því miður hefur kerfið alls ekki virkað sem skildi en mest af því skrifast á þann sem hafði með skrifun hugbúnaðarins að gera. Félögin hér heima og ÍHÍ hafa gert sitt ítrasta en það hefur því miður ekki dugað til. Okkur er mikil nauðsyn á að koma þessu kerfi í lag hið fyrsta og vona ég svo sannarlega að það gangi fljótlega í byrjun árs.  28 október sl. er einn af þeim dögum sem íshokkí á Íslandi á eftir að muna eftir. Þá var í fyrsta skipti sýndur leikur í beinni útsendingu á opinni rás, þ.e. á RÚV. Leikurinn var eins og nærri má geta góð auglýsing fyrir íþróttina og vonandi er þetta aðeins byrjunin að því sem koma skal. Í janúar er reyndar vonast til að næsti leikur verði sýndur og verið er að athuga með frekari sýningar. Útbreiðslunefnd tók til starfa á vegum ÍHÍ eftir að reglugerð um hana var samþykkt og vonandi nær hún að þyngja enn sóknina sem nú er hafin.

Landsliðsmál
Landsliðsmál eru að sjálfsögðu fyrirferðarmikil í okkar starfi og ef horft er til stærðar íþróttarinnar hér á landi er enginn vafi í mínum huga að þessi þáttur er ótrúlega stór. Á hverju ári leika íshokkímenn í það heila um 20 landsleiki víðsvegar um heiminn. Þetta eykur fjölbreytileikann til muna hjá leikmönnum og er ekkert nema gott um það að segja, jafnvel þó sumir leikirnir tapist svolítið illa. Að sjálfsögðu útheimtir þetta nokkra vinnu en ég held að þetta skili sér vel til baka í að gera leikmenn að enn betri spilurum. Nú er nokkuð rætt um hvort þurfi ekki að fara að færa landsliðsmálin fram á við um eitt skref. Þ.e. að fara að æfa meira fyrir keppnir t.d. að halda æfingabúðir jafnt og þétt allt árið. Gaman væri að gera tilraun með eitt landslið, t.d. U18 ára liðið og sjá hver munurinn yrði. Þetta eins og annað kostar vinnu og peninga en byrjunin er samt að taka umræðuna og athuga hvað út úr henni kemur.

Íshokkíþing
Í ágúst síðastliðnum var 3ja íshokkíþing ÍHÍ haldið að Rangárvöllum á Akureyri. Fátt bar svo sem til tíðinda enda mest megnis um lögbundin störf að ræða. Málin voru þó rædd vítt og breytt og í nóvember hélt síðan stjórn ÍHÍ sex klukkustunda vinnufund þar sem umræðunni var framhaldið. Annað sem ég kanski tók sérstaklega eftir var þegar formaður ÍHÍ, Viðar Garðarsson, sagði það sína skoðun að ekki væri nóg um að þeir sem ynnu í sjálfboðavinnu fyrir íþróttina fengju klapp á bakið fyrir vel unnin störf. Ástæða er til að taka undir þetta og benda fólki á að með jákvæðni má örugglega ná meiri árangri heldur en að reyna í sífellu að finna eitthvað til að kvarta og kveina yfir. Á þingingu var einnig kjörinn fyrsti heiðursfélagi ÍHÍ og varð dr. Gauti Arnþórsson læknir fyrir valinu.
 
Framtíðin
Framtíðin í íslensku íshokkí er ágætlega björt ef við náum að halda rétt á spilunum. Eins og áður sagði er nauðsynlegt að fleiri skautasvell verði byggð svo fjölga megi iðkendum og liðum. Einnig þyrfti að nást að efla kvennahokkíið og hafa menn verið að horfa svolítið í stelpur sem hætta á listskautum sem efnilega kandídata fyrir íshokkí. Íshokkí er spennandi og skemmtileg íþrótt á að horfa. Sá sem þetta skrifar hefur fylgst með margskonar íþróttum allt sitt líf og þá mest iþróttum þar sem vænta má spennu og hraða. Íshokkí var reyndar ekki ein af þeim íþróttum en hún er það að sjálfsögðu núna. Margir hafa áhuga fyrir íþróttum sem fara saman spenna og hraði og því enginn vafi í mínum huga að það er fullt af fólki sem við getum náð til.
 
Að lokum
Eitt af því sem við þurfum að passa okkur á er að bera virðingu fyrir íþróttinni okkar. Við getum ekki ætlast til þess að þeir sem eru iþróttinni ókunnugir beri fyrir henni virðingu ef við gerum það ekki sjálf. Leikmenn þurfa einnig að bera virðingu fyrir þeim félögum sem þeir leika með og varast að gera eitthvað það sem valdið getur þeim skaða. Menn þurfa því að vera í stöðugri sjálfskoðun og líta í eigin barm.Ég vil að lokum þakka fyrrverandi og núverandi stjórnarmönnum samstarfið á liðnu ári og einnig formönnum nefnda og öðrum þeim sem ég hef átt í samstarfi við. Eins og ég minntist hér á áðan sagði Viðar Garðarsson á sl. Íshokkíþingi að nauðsynlegt væri að menn fengju einstaka sinnum klapp á bakið fyrir vel unnin störf. Ég er innilega sammála Viðari um þetta og klappið á bakið frá mér þetta árið fær Helgi Páll Þórisson sem margoft á árinu hefur aðstoðað mig með eitt og annað. Kann ég honum bestu þakkir.
 
Gleðilegt ár.
 
Hallmundur Hallgrímsson