Úrslitakeppni - mfl. karla.

Þegar þetta er skrifað er innan við sólahringur þangað til fyrsti leikur í úrslitarimmu Skautafélags Akureyrar og Skautafélags Reykjavíkur hefst. Spennan hefur smátt og smátt verið að vaxa og greinilega má sjá og heyra á leikmönnum beggja liða að þeir ætla að mæta í sínu besta formi. Fyrsti leikurinn fer fram í skautahöllinni á Akureyri og hefst hann stundvíslega klukkan 19.00 Einsog áður stendur það lið uppi sem sigurvegari, sem fyrr verður til að vinna þrjá leiki. Fyrsti leikurinn fer fram, eins og áður sagði á morgun miðvikudag og strax daginn eftir leika liðin aftur á sama stað og sama tíma. Siðan verður tekin frídagur en á laugardaginn mætast liðin í þriðja leik á heimavelli SR-inga í Laugardalnum klukkan 15.00 en þess má geta að sá leikur verður í beinni útsendingu á RÚV. Ráðist úrslit ekki á laugardeginum verður aftur leikið á sama stað daginn eftir, þ.e. sunnudeginum en fimmti leikurinn fer síðan fram á Akureyri á þriðjudeginum ef með þarf. Þeir sem horfðu á úrslitakeppnina á síðasta ári vita að allt getur gerst í þessum leikjum og dagsformið og hugarfarið skiptir miklu máli. Þar endaði keppnin í fimm leikjum, framlengingu og vítakeppni í fimmta og síðasta leiknum og flestir eru sammála um að þar hafi einn skemmtilegasti leikur í íslensku íshokkí verið spilaður. Við hvetjum unga sem aldna til að mæta á leikina hvort sem er fyrir norðan eða sunnan.

Myndina tók Margeir Örn Óskarsson

HH