N-Kórea - Ísland umfjöllun.

Annar leikur Íslands í II deild A-riðils var gegn N-Kóreu en leikurinn fór fram í gær miðvikudag. Íslenska liðið hafði sigur, gerði 3 mörk gegn 2 mörkum andstæðinganna. Einsog áður var spilaði íslenska liðið á öllum mannskapnum og því var nokkuð jafnt álag á liðinu en það sama verður ekki sagt um andstæðingana.

N-Kóreumenn gerðu fyrstu tvö mörkin í leiknum um miðjan fyrsta leikhluta og segja má að það hafi verið nokkuð gegn gangi leiksins. Íslenska liðið hafði reyndar strax á þriðju mínútu fengið víti sem Emil Alengaard náði ekki að skora úr en fram að mörkunum tveimur höfðum við sótt síst minna. Rétta fyrir lok fyrsta leikhluta náði íslenska liðið að rétta aðeins sinn hlut þegar Emil Alengaard skoraði gott mark með skot uppi eftir stoðsendingu frá Gauta Þormóðssyni og Ingvar Þór Jónssyni en á þeim tíma var íslenska liðið einum fleiri á vellinum. Staðan því 1 – 2 N-Kóreumönnum í vil.

 
Í öðrum leikhluta var nokkuð jafnræði með liðunum en það voru þó íslendingar sem náðu að skora eina mark lotunnar. Andri Már Mikaelsson náði að vinna dómarakast og sendi pökkinn beint á Björn Má Jakobsson sem skaut hörku skoti frá bláu línunni án þess að kóreski markamaðurinn næði að koma nokkurum vörnum við.
 
Í þriðju lotu fóru yfirburðir íslenska liðsins að koma í ljós. Liðið spilaði af meiri krafti en andstæðingarnir. Það sést vel þegar litið er á tölfræðina því íslenska liðið átti 15 skot á mark gegn 8. Þegar lotan var hálfnuð komst íslenska liðið í gegn tveir á móti einum varnarmanni kóreska liðsins. Fyrst átti Pétur Maack hörkuskot að marki sem markvörðurinn varði en hélt ekki og Andri Már Mikaelsson hirti frákastið og skoraði.
Eftir þetta var íslenska liðið með leikinn í hendi sér nema hvað þegar tæpar 2 mínútur lifðu leiks fékk Jónas Breki brottvikningu þannig að N-kóreumenn gerðu sitt ýtrasta til að jafna einum fleiri. Ekki kom mikið úr þeim sóknaraðgerðum og sigurinn var okkar.

 
Í lok leiks var Andri Már Mikaelsson valinn maður leiksins í íslenska liðinu en hann er að leika í fyrsta skipti á HM með karlalandsliðinu og þvi var þetta bæði hans fyrsta mark og stoðsending. Gaman er að sjá að ungu mennirnir í liðinu eru að gera sitt rétt einsog aðrir í liðinu en daginn áður var Egill með mark gegn kínverjum. En fyrst og fremst var þetta sigur liðsins. Liðið nýtti sér að vera manni yfir með því að skora mark en einnig var það að gera vel þegar það var manni undir á vellinum.

Vinnusigur sem gaf góð þrjú stig.

HH