Leikur helgarinnar.

Á morgun, laugardaginn 17.2 leiða saman hesta sína lið Bjarnarins og Skautafélags Akureyrar. Leikurinn hefst klukkan 20.30 og fer fram í Egilshöll. Segja má að síðustu tveir leikir í íslandsmótinu hafi verið með allra fjörugusta móti, og mjög svo kaflaskiptir. Í fyrri leiknum léku Bjarnarmenn gegn SA-mönnum og komust í tveimur mörkum yfir fyrir síðustu lotu. Henni hinsvegar töpuðu Bjarnarmenn með þremur mörkum og þar með leiknum. Því næst tóku Bjarnarmenn á móti SR-ingum og nú má segja að dæmið hafi snúist við. SR-ingar komust þremur mörkum yfir fljótlega í leiknum en gáfu eftir og Bjarnarmenn fögnuðu sigri með tveimur mörkum. Einsog áður sagði voru báðir þessir leikir hin fínasta skemmtun og því ekki ástæða til að ætla annað en að þessi leikur verði það líka. Eitthvað er um brottfall í báðum liðum en þó ætti það ekki að koma að sök.