Komnar heilu og höldnu til Seoul í S.Kóreu

Ferðin hófst hjá stúlkunum að norðan á þriðjudagskvöld og að sjálfsögðu var haldið beint á fyrsta úrslitaleikinn með restinni af liðinu. Þar var þjálfarinn þeirra hann Richard Tahtinen á svellinu með sínum mönnum í Birninum að keppa í fyrsta úrslitaleiknum um Íslandsmeistaratitilinn og fóru þeir félagar með sigur af hólmi gegn SR.

Á miðvikudagsmorgun 7.mars mætti hópurinn 18 talsins og 5 manna fararstjórn á BSÍ kl. 6 og ferðin var formlega hafin. Ein svaf yfir sig en var pikkuð upp í Hafnarfirði þannig að dagurinn reddaðist hjá henni og allir önduðu léttar.  Vel gekk að tékka inn, allar með viktina á hreinu og gera greinilega ráð fyrir að bæta eitthvað í töskurnar hér í gósenlandi verslanaglaðra. Flug var fínt til London, áhöfn vélarinnar vakti athygli á (og þurfti svo sem ekki því hinir glæsilegu ferðajakkar liðsins vekja athygli hvar sem er) að meðal farþega væri íshokkílandslið kvenna og bæði flugstjóri og flugfreyjur óskuðu liðinu góðs gengis í hátalarakerfinu. Hópnum leiddist það ekkert :-) Á Heathrow eyddi hópurinn deginum við uppbyggilega iðju af ýmsu tagi og tíminn leið bara ótrúlega hratt. Undir kvöld var stigið upp í júmbóþotu þar sem brosmildar og þjónustulundaðar flugfreyjur Korean Air tóku vel á móti liðinu. Ekki væsti um ferðalangana næstu 11 klukkutímana þó að misjafnlega hafi gengið að festa svefn og hvílast. Allur farangurinn skilaði sér.  Á flugvellinum í Seul tók á móti okkur umsjónarkonan okkar hún Hyery en hún dvelur á hótelinu hér með okkur og uppfyllir allar (næstum) okkar þarfir meðan á dvölinni stendur. Hitinn var um 4 gráður þegar við lentum, bjart og kyrrt öfugt við strekkinginn sem kvaddi okkur við Leifsstöð. Hópurinn er mjög samhentur og jákvæður og einstaklega meðfærilegur á ferðalögum...vottar fararstjórinn.

Margt nýstárlegt ber fyrir augu hér suður frá og verður án efa svo áfram næstu dagana. Stúlkurnar lögðu á sig aðeins lengri bílferð frá flugvellinum til þess að fara yfir hina 18.384 metra löngu Incheon brú sem var opnuð 2009 og er stórkostlegt mannvirki á að líta.

Stíf dagskrá hefst strax kl. 7.30 í fyrramálið og fyrsta ís æfing er kl. 11.15. Meiri fréttir og myndir á morgun.
Kveðja heim.