Ísland sigraði Belga á HM IIB í Seul í S.Kóreu

Birna Baldursdóttir fagnar fyrsta markinu á mótinu
Birna Baldursdóttir fagnar fyrsta markinu á mótinu

Leikurinn bar þess merki til að byrja með að vera fyrsti leikur mótsins, leikmenn voru stressaðir en óx ásmegin eftir því sem leið á. Belgar sóttu grimmt en varnarleikur Íslendinga hélt og Karítas markmaður varði vel. Í heildina áttu Belgar fleiri skot á mark en sóknir íslenska liðsins voru hættulegri. Ekkert var skorað í fyrsta leikhluta en strax á fyrstu mínútu annars leikhluta slapp leikmaður Belgíska liðsins fram hjá vörn okkar stúlkna og skautaði frír að markinu og náði að skora. Það var svo ekki fyrr en á næst síðustu mínútu eftir spennandi sóknir á báða bóga allan leikhlutann sem Íslendingar ná að jafna og var þar að verki Birna Baldursdóttir eftir stoðsendingu frá Önnu Sonju Ágústsdóttur og Söruh Smiley. Í þriðja leikhluta lendir Íslenska liðið í því að það er dæmt víti en Karitas sigldi á móti Belgíska leikmanninum og varði skot hennar. Ekkert var gefið eftir í baráttu okkar stúlkna og það var síðan er þrjár og hálf mínúta voru eftir af leiknum að Ísland náði að skora og var þar aftur að verki Birna Baldursdóttir. Þá tók Richard Tahtinen leikhlé og lagði línurnar fyrir þær mínútur sem eftir lifðu af leiknum og okkar leikmenn stóðust álagið og héldu Belgum frá því að jafna. Frábær byrjun hjá íslensku stúlkunum, sem hafa komist yfir flugþreytu eftir langt ferðalag og stillt saman sterka strengi sína fyrir fleiri átök framundan. Næsti leikur liðsins er á morgun sunnudag kl. 20.00 að staðartíma eða kl. 11.00 gegn heimamönnum Kóreu.