Ísland sigraði Belga á HM IIB í Seul í S.Kóreu

Eftir fyrsta leikhluta er staðan 0-0. Leikurinn hefur á sér yfirbragð þess að vera fyrsti leikur á mótinu, mikill hraði og spenna en róaðist þó aðeins þegar á leið. Belgar sóttu stíft en varnarleikur okkar hélt og Karitas markmaður fékk á sig nokkur skot sem hún varði af sinni alkunnu snilld. Undir lokin færðist leikurinn meira af okkar vallarhluta og yfir þar sem við áttum nokkur skot á mark Belganna.

Belgar skoruðu fyrsta mark leiksins á annarri mínútu annars leikhluta er leikmaður þeirra braust ein í gegn um vörnina á miðjum velli og spilaði upp að okkar marki og kom pekkinum fram hjá Karitas. Leikurinn var áfram spennandi og góður, okkar lið sótti í sig veðrið og á síðustu mínútu leikhlutans skoraði Birna Baldursdóttir eftir stoðsendingu frá Önnu Sonju Águstsdóttur og Söruh Smiley. Staðan 1-1.