Hokkíhelgi.

Það má segja að helgin framundan sé ein af þessum virkilega stóru hokkíhelgum. Þrátt fyrir að ekkert sé leikið í meistaraflokki kvenna eða karla þá eru samt 33 hokkíleikir á dagskránni og allir fara þeir fram hér í Reykjavík. 

Fyrst ber að telja stórt og mikið barnamót í 4. og 5 flokki sem fer fram í Laugardalnum. Þessir flokkar hjá okkur eru ört stækkandi og mikill metnaður lagður í það hjá félögunum að hlúa að þessu starfi. Til að koma mótinu saman þarf að spila þétt, mæta snemma og hætta mátulega seint. Dagskrá mótinsins er einsog vanalega á forsíðunni hjá okkur og við reynum að birta öll úrslit eins fljótt og hægt er. Reykjavíkurfélögin tefla fram a og b liðum í báðum flokkum enn SA-menn einu.

Í Egilshöllinni er síðan haldið heldri manna mót en þar eru á ferðinni lið frá Gentöfte (DK), Philadelphiu, Florida og Toronto, einnig eru þarna lið frá SR og Birninum. Sá sem þetta ritar kíkti stuttlega við í gærkvöld og virtust menn skemmta sér konunglega þó svo að keppnisskapið væri að sjálfsögðu á sínum stað. Spilaðar eru 2x20 mínútur á rúllandi klukku.

Myndina tók Ómar Þór Edvardsson

HH