Leikur kvöldsins.

Í kvöld leika í Skautahöllinn í Laugardal lið Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Bjarnarins. Leikurinn hefst klukkan 20.30. Eitthvað er um meiðsl í liði Skautafélags Reykjavíkur þar sem nýi tékkinn þeirra, Martin Soucek er meiddur á hné og Egill Þormóðsson  glímir við meiðsl í öxl. Hinsvegar kemur maður í manns stað og enginn hætta á öðru en að SR-ingar mæti galvaskir til leiks. Sjaldan hefur Íslandsmótið í íshokkí verið eins jafnt og það er núna þar sem þessi tvö lið ásamt Skautafélagi Akureyringa berjast um að komast í úrslitakeppnina. Narfinn situr hinsvegar kyrfilega á botninum en hefur verið að bæta við sig mannskap í síðustu leikjum þannig að þeir ættu í framtíðinni að geta veitt hinum liðunum meiri keppni.  SR-ingar eru efstir með 18 stig að loknum átta leikjum en Björninn hefur hinsvegar 12 stig en hefur leikið tveimur leikjum færra og getur því með sigri saxað á forskot SR-inga. Síðast þegar liðin áttust við fóru Bjarnarmenn með sigur af hólmi, unnu með 6 mörkum gegn 4 en úrslitin réðust ekki fyrr en ein og hálf mínúta lifði leiks.

Myndina tók Ólafur Ragnar Ósvaldsson.

HH