Hokkíhelgi

Hokkíhelgin fer fram sunnan heiða að þessu sinni og sem betur fer fyrir þá sem standa að mótamálum er veðurspáin góð. Báðir leikir helgarinnar fara fram á morgun, laugardag.

Fyrst ber að nefna leik Bjarnarins og SA Valkyrja í meistaraflokki kvenna en leikurinn fer að sjálfsögðu fram í Egilshöll og hefst klukkan 19.15. Bæði liðin hafa leikið þrjá leiki. Valkyrjur eru með fullt hús stiga en Bjarnarstúlkur eru stigi á eftir því þær töpuðu stigi í leik á móti SA Ynjum. Liðin hafa ekki leikið áður í vetur og spennandi verður að sjá hvernig þau koma undan sumri.

Í Laugardalnum leika hinsvegar 2. flokkur Skautafélags Reykjavíkur og Skautafélags Akureyrar. Leikurinn hefst klukkan 18.30. Rétt einsog í hinum leiknum hafa þessi lið ekki leikið áður á þessum vetri en bæði eiga unga og efnilega leikmenn sem fá að sýna sig.

Um helgina er líka markmannsþjálfaranámskeið á vegum ÍHÍ. Námskeiðið hófst í morgun og stendur til sunnudags. Um er að ræða fyrirlestra, ís- og afísæfingar. Það er Hannu Nykvist sem hefur yfirumsjón með námskeiðinu en hann er yfirmarkmannsþjálfari hjá finnska íshokkísambandinu. Myndin að ofan var tekin á ísæfingu í Egilshöllinni í morgun.

HH