Dómsmál

Í gær fór fram munnlegur málflutningur í kærumáli Bjarnarins á hendur Skautafélagi Akureyrar.  Björninn kærði SA fyrir notkun á ólöglegum leikmanni í tveimur leikjum í desember og janúar en umræddur leikmaður er Jan Kobezda, þjálfari SA.
 
Björninn byggir kæru sína á reglugerð 10 um félagaskipti, grein 7.2. en þar segir;
 
Erlendir leikmenn skulu ekki hljóta keppnisleyfi eingöngu fyrir úrslitakeppni, heldur þurfa þeir að hafa leikið með liði sínu a.m.k. fjórar síðustu umferðir.
 
Jan Kobezda spilaði ekki leik í 3. umferð Íslandsmótsins þar sem hann hlaut tveggja leikja bann sem þjálfari í leik gegn Birninum þann 29. október.
 
Málsaðilar tókust á um þetta mál fyrir dómstól ÍSÍ í gær, sem snýst um túlkun á ofangreindu reglugerðarákvæði.  Dóms í málinu er að vænta í næstu viku.
 
Mikið er í húfi fyrir bæði félögin því þau berjast nú um sæti í úrslitakeppninni í vor.  Það þykir næsta öruggt að það lið sem ber sigur úr býtum í dómssal sé á leið í úrslit á móti Skautafélagi Reykjavíkur.