Alex Máni Sveinsson semur við Örnsköldsvik Hockey Association

Alex Máni Sveinsson einn af okkar frábæru ungu leikmönnum sem verið hefur að reyna fyrir sér erlendis. Gerði í vikunni tveggja tímabila samning við Örnsköldsvik Hockey Association  (ÖHF).  Alex Máni hefur verið að leika með 20 ára liði ÖHF á þessu tímabili og varð fljótt einn af lykil mönnum þess og fékk í kjölfarið nokkra leiki með aðalliði félagsins þar sem hann stóð sig með frábærlega. Það skilaði honum núna tveggja tímabila samningi með aðalliði ÖHF. Alex Máni er fyrsti íslendingurinn sem alin er upp innan íslensks félagsliðs, Skautafélags Akureyrar sem gerir tveggja tímabila samning við lið sem spilar í 1. deild í Svíþjóð eins og deildin nefndist áður, en deildin kallast nú Hockeyettan á sænska vísu. 

Í Svíþjóð er atvinnumanna deild sem nefnist Elitserien (SHL) í henni eru 14 lið. Þar undir deild sem nefnist Allsvenskan sem einnig er atvinnumannadeild og þar spila einnig 14 lið. Þar á eftir kemur Hockeyettan en í henni eru 40 lið sem spila svæðaskipt. ÖHF spilar í norður riðli deildarinnar þar sem eru 10 lið. Liðið hefur átt frekar þungt tímabil og komst ekki inn í úrslitakeppni.  Samningurinn við Alex Mána er því eitt af því sem félagið er að gera til þess að styrkja sig fyrir komandi tímabil.  

Alex Máni er nú staddur hér heima að undirbúa sig fyrir næsta verkefni Karlalandsliðs Íslands sem heldur til Serbíu síðari hluta apríl þar sem leiknir verða 5 leikir sem hluti af heimsmeistaramóti Alþjóða íshokkísambandsins.  Hann á ekki langt að sækja skautaáhugann. Langafi hans var Gunnar Thorarensen fyrsti formaður og heiðursfélagi Skautafélags Akureyrar og sá einstaklingur sem fyrstur þýddi leikreglur í íshokkí yfir á íslensku. 

ÍHÍ óskar Alex Mána innilega til hamingju með samninginn við Örnsköldsvik Hockey Association. Ekki er nokkur vafi á að íslenskt íshokkí á eftir að njóta krafta hans og reynslu á komandi árum.