Ótrúlegur sigur hjá kvennalandsliðinu í íshokkí á móti Nýja-Sjálandi

Í þessum töluðu orðum var æsispennandi viðureign Íslands og Nýja-Sjálands að ljúka, var þetta annar leikur íslenska kvennalandsliðsins í íshokkí á heimsmeistaramóti kvenna sem fram fer í Valdemoro á Spáni. Leikurinn endaði í framlengingu og svo vítakeppni þar sem íslenska liðið stóð uppi sem sigurvegari. Óhætt er að segja að Sarah Smiley, leikmaður Skautafélags Akureyrar, hafi verið stjarna leiksins, með 5 mörk í það heila og 2 stoðsendingar.

Íslenska liðið hóf fyrstu lotu af krafti og stjórnuðu leiknum, fullar sjálfstrausts og ekki hægt að merkja þreytu eftir tapleik gærdagsins á móti Spáni. Flosrún Jóhannesdóttir reið á vaðið á 15 mínútu leiksins og skorði mark eftir undirbúning Söruh Smiley, þegar íslenska liðið var einu manni fleiri. Berglind Leifsdóttir fylgdi í kjölfarið og skorði sitt fyrsta mark með landsliðinu eftir flott spil milli hennar, Kolbrúnar Garðarsdóttir og Söruh Smiley. Staðan eftir 1.lotu var því 2-0 íslenska liðinu í vil.

Í annarri lotu mættu þær nýsjálensku grimmar til leiks og skoruðu eina mark lotunnar, íslensku stelpurnar áttu færi en náðu ekki að nýta þau.

Við upphaf 3.lotu gerðu þær nýsjálensku sér lítið fyrir og skoruðu sitt annað mark og svo fylgdi annað mark stuttu síðar. Íslenska liðið var þá komið undir með einu marki og þannig hélst staðan þar nánast fullur leiktími var liðinn. Þjálfarar íslenska liðsins tóku þá markmanninn út af og spilaði því íslenska liðið einu manni fleiri síðustu 50 sekúndur leiksins. Það borgaði sig því íslenska liðið náði að jafna þegar einungis 4 sekúndur voru eftir, var það Sarah Smiley á ferð eftir stoðsendingu frá Kolbrúnu Garðarsóttir. Mikill fögnuður braust út hjá liðinu og áhorfendum í stúkunni og framlenging var staðreynd. Framlengingin var reyndar tíðindalítil svo leikurinn endaði í vítakeppni. Guðlaug Þorsteinsdóttir, varði af miklu öryggi frá bestu leikmönnum Nýja-Sjálands en tvö skot fóru þó inn. Stjarna leiksins var, að öllum ólöstuðum, Sarah Smiley því henni tókst, af miklu sjálfsöryggi, að setja pökkinn 4 sinnum í net andstæðinganna í vítakeppninni.

Íslensku stelpurnar voru að vonum mjög glaðar með leikinn og óhætt er að segja að þær hafi sýnt mikinn karakter að klára hann með þessum hætti.

Kristín Ingadóttir, leikmaður Reykjavíkur, var valinn besti maður leiksins, enda átti hún frábæran leik.

Á morgun er frídagur og svo er leikur á þriðjudaginn við Tyrkland, kl.12.30 á íslenskum tíma.

Áfram Ísland!