Hokkíhelgin

Frá leik Ásynja og Bjarnarins um síðustu helgi
Frá leik Ásynja og Bjarnarins um síðustu helgi

Framundan er fjörug hokkíhelgi því fjórir leikir eru á dagskrá, á morgun laugardag, og eru þrír þeirra í meistaraflokki.

Fyrsti leikurinn hefst klukkan 16.30 en þá mætast á Akureyri SA Víkingar og Björninn í meistaraflokki karla.  Um toppslag er að ræða en Víkingar hafa átta stiga forskot á Björninn og geta með sigri bætt enn við forskotið. Björninn mun leggja áherslu á að stöðva stiga- og markahæðsta leikmann deildarinnar um þessar mundir, Ben DiMarco. Víkingar munu hinsvegar leggja áherslu á að stoppa kraftspil Bjarnarins en liðið hefur nýtt 32% þeirra á tímabilnu til að skora mark.

Í Egilshöllinni mætast síðan Björninn og Ásynjur í meistaraflokki kvenna og hefst leikurinn klukkan 18.30. Þetta er í fjórða sinn sem liðin mætast í vetur en Ásynjur hafa fram til þessa alltaf haft betur en einusinni þurfti þó framlengingu til að knýja fram úrslit. Síðast léku liðin um síðustu helgi á Akureyri og þá unnu Ásynjur þrjú eitt sigur sem í leiðinni tryggði þeim deildarameistaratitilinn sem afhentur verður þeim á morgun. Þessi sömu lið mun síðan mætast í úrslitakeppni sem ráðgert er að hefjist þriðjudaginn 24. febrúar.

Þriðji leikurinn sem fram fer á morgun er leikur Esju og Skautafélags Reykjavíkur og hefst hann klukkan 18.45 í Laugardalnum. Esjumenn áttu slæman dag gegn Víkingum í vikunni og munu án nokkurs vafa vilja ná betri leik að þessu sinni. SR-ingar, sem eru í harðri baráttu um sæti í úrslitum, ætla sér stigin þrjú sem eru í boði. Síðast þegar liðin mættust unnu SR-ingar nauman 2 – 1 sigur, þar sem sigurmarkið kom á lokamínútunni.

Fjórði leikurinn sem leikinn er um helgina er leikur SA og Bjarnarins í 3. flokki en leikurinn fer fram á Akureyri og hefst um leið og karlaleiknum lýkur.

Mynd: Elvar Freyr Pálsson

HH