Gleðilegt sumar, kveðja frá formanni

Kæra íshokkífólk, 
Ég hef verið þess heiðurs aðnjótandi að fá að taka þátt í því með ykkur að byggja upp íþróttina sem okkur öllum þykir svo vænt um og höfum svo gaman af. En nú er komið að því að leiðir skilji.

Ég hef ákveðið að taka áskorun sem mér hefur borist víða úr íþróttahreyfingunni, þess efnis að gefa kost á mér í kosningum á komandi íþróttaþingi til framkvæmdastjórnar Íþrótta og ólympíusambands Íslands. Þingið fer fram fyrstu helgi maí mánaðar. Samkvæmt þeim reglum sem þar gilda getur sitjandi formaður sérsambands ekki boðið sig fram til starfa og því mun ég á næstu dögum stíga til hliðar og rétta varaformanni stjórnartaumana. Þið munuð svo kjósa ykkur nýjan formann á fyrirhuguðu íshokkíþingi í endan maí.

Ég tók sæti í stjórn Íshokkídeildar Skautasambands Íslands árið 1996 og hef því fengið að starfa með ykkur síðastliðin 21 ár. Ég varð formaður Íshokkídeildarinnar á árinu 2003 og tók þátt í því ásamt öðru góðu samstarfsfólki að stofna sjálfstætt sérsamband, Íshokkísamband Íslands árið 2004. Þar naut ég ykkar trausts til þess að gegna formennsku og hef gert það frá þeim tíma eða í 13 ár. Þetta hefur verið þroskandi og skemmtilegur tími.

Í amstri augnabliksins er oft eins og árangur láti á sér standa þrátt fyrir mikinn metnað og gott starf. En þegar litið er til baka nokkur ár í einu sést svo vel hvað árangur af starfi okkar hefur verið ótrúlega mikill. 
Hver hefði trúað því að pínu lítil íþrótt með rétt um 600 iðkendur og þrjú skautasvell, gæti á 17 ára tímabili náð þeim árangri að komast með landslið sitt úr hópi þeirra sem lakastir eru á heimslista,  í þá stöðu að vera að spila um sæti 29 til 34 á sama lista síðustu árin. Í samanburði við aðrar þjóðir sem eru mikið stærri og fjölmennari en við er þetta ótrúlegt afrek.

Í þessu endurspeglast árangurinn af þrotlausri vinnu okkar síðustu árin. Já ég segi okkar því þessi árangur verður ekki til á stjórnarfundum Íshokkísambandsins. Hann verður fyrst og fremst til hjá ykkur, leikmönnum, þjálfurum, tækjastjórum, liðsstjórum, læknum, sjúkraþjálfurum og síðast en ekki síst,  stjórnar- og stuðningsmönnum félaganna í grasrótinni. Hjá aðildarfélögunum sem árum saman hafa sýnt ótrúlegan metnað, dugnað og eljusemi við að rækta upp framúrskarandi gott íþróttafólk og fyrirmyndar samfélagsþegna. Ekkert er íþróttinni eins mikilvægt og barna- og unglingastarfið sem unnið er hjá félögunum.

Vissulega eru ávallt einhverjar blikur á lofti. Við þurfum núna sem hreyfing að koma kvennastarfinu betur á legg. Leggja í það aukinn metnað, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu. Við þurfum líka aukinn kraft í nýliðun, hver árgangur þarf helst að vera 150 börn. Þá heldur hreyfingin áfram að vaxa og dafna.Við megum ekki gleyma okkur í harðri keppni augnabliksins. Það er skylda okkar að passa upp á hvert annað. Standa saman um stóru málin og heildar hagsmunina og takast svo duglega á inn á vellinum. Þannig og aðeins þannig fleytum við íþróttinni okkar áfram.

Það hefur verið lán íshokkíhreyfingarinnar að hafa ætið fengið til starfa gott og duglegt fólk. Ég vona að svo verði áfram, þá er engu að kvíða, stefnan áfram tekin upp á við.

Ég hef stundum látið hafa eftir mér að ef okkur tekst að fjölga iðkendum í tólf- til fimmtánhundruð  og sjá byggð 3 til 5 hús til skautaiðkunar til viðbótar þá munum við í kjölfarið komast í hóp 16 bestu þjóða heims. Í mínum huga er þetta ekki spurningin um hvort, heldur bara hvenær.

Ég kveð ykkur því stoltur af því sem áunnist hefur, um leið og ég þakka gott og gefandi samstarf, óska ykkur öllum alls hins besta á komandi árum.  Gleðilegt sumar.

Viðar Garðarsson,
formaður 
Íshokkísambands Íslands